Mannauður

Starfsánægja stuðlar að betri þjónustu

Góð fyrirtækjamenning er mikilvæg til að fyrirtæki nái þeim árangri sem stefnt er að. Það á ekki síst við hjá þekkingarfyrirtæki á borð við Mannvit, þar sem þjónusta og ráðgjöf byggja á þekkingu og hugviti starfsfólks.

Við leggjum okkur fram um að fólki líði vel á vinnustaðnum og hlakki til að mæta í vinnuna. Gleði og liðsheild eru hornsteinar í því starfi og þar skiptir öflugt starfsmannafélag og frumkvæði starfsmanna miklu máli.

 

Við höfum lagt áherslu á að vera með viðburði til að brjóta upp vinnuvikuna og hrista starfsfólkið saman. Mannvit er verkefnadrifið fyrirtæki þar sem fólk úr mismunandi deildum vinnur saman og verkefnahóparnir eru síbreytilegir. Því er mikilvægt að fólk þekkist og eigi auðvelt með að vinna saman.

Það er mikill styrkur hjá Mannviti hversu mikið af félagslífinu hér er sjálfsprottið. Við höfum notað samskiptamiðilinn Workplace, sem er keimlíkur Facebook, til að tengja fólk saman og þar hafa alls kyns hópar orðið til í kringum mismunandi áhugamál.

 

Vissulega gegna stjórnendur mikilvægu hlutverki í að byggja upp og viðhalda sterkri og góðri fyrirtækjamenningu, en það starf verður mun auðveldara og árangurinn meiri þegar starfsfólkið sýnir einnig frumkvæði í að viðhalda virku og öflugu félagslífi.

„Við höfum lagt áherslu á að auka upplýsingaflæði innan fyrirtækisins og gefa fólki færi á að kynnast því betur hvað er að gerast á hjá öðrum verkefna- og faghópum.“

Hildur Þórisdóttir, mannauðsstjóri

Samgöngustyrkir til starfsmanna

Kynjaskipting

Menntun

Við höfum lagt áherslu á að auka upplýsingaflæði innan fyrirtækisins og gefa fólki færi á að kynnast því betur hvað er að gerast hjá öðrum verkefna- og faghópum. Það höfum við bæði gert á Workplace, en einnig með upplýsingaskjám á kaffistofunum. Verkfræðiráðgjöf snertir alla anga samfélagsins og starfsfólk Mannvits er mjög duglegt að taka þátt í ýmiskonar málstofum og öðrum viðburðum þar sem rætt er um uppbyggingu og þróun samfélagsins. Mannvit tekur virkan þátt í nýsköpun og þróun á Íslandi. Starfsfólk er hvatt til að virkja sköpunargáfu sína og er vinna þess á sviði nýsköpunar og þróunar mikilvæg fyrir félagið.

Mannvit hefur alltaf lagt mikið upp úr umhverfis- og öryggismálum og verið til fyrirmyndar og í fararbroddi á því sviði. Í dag er farið að huga að þeim þáttum í mun víðara samhengi með sjálfbærni og samfélagsábyrgð að leiðarljósi. Við setjum okkur metnaðarfull markmið tengd umhverfis-, öryggis- og jafnréttismálum og tryggjum að sjálfbærni sé rauður þráður í allri okkar starfsemi.